Rwenzori fjallganga í ágúst 2022

Efsti tindur Rwenzori fjallanna, Margherita tindurinn

Mt. Stanley, 5.109m, 3. hæsta fjall Afríku

Mynd frá Rwenzori fjallgarðinum
Mynd úr John Matte skálanum
Útsýni af toppnum
Mynd af undarlegu gróðurfari
Mynd af kamelljóni
Mynd af gönguleið í gegnum skóg
Mynd af alparós

Gönguferð fyrir ævintýragjarna

Í aldaraðir hefur Afríka laðað til sín fólk í leit að ævintýrum sem ekki gefst færi á að upplifa annars staðar. Fáir staðir í heiminum eru jafn framandi og sveipaðir eins mikilli dulúð. Óvíða er dýralífið jafn fjölbreytt og mannlífið og menningin eins litrík.

Rwenzorifjöllin eru lítill en magnaður fjallgarður á landamærum Uganda og Congo. Þau eru um 120km á lengd og 65km á breidd og eru talin hafa myndast við landris fyrir um þremur milljónum ára. Þau eru hluti af kerfinu sem myndar Sigdalinn mikla. Fjallgarðurinn samanstendur af 6 fjöllum, Mt. Stanley, Mt. Speke, Mt. Baker, Mt. Emin, Mt. Gessi og Mt. Luigi di Savoia. Mt. Stanley er hæsta fjallið en tindurinn er jafnan kallaður Margherita tindur, 0°23′09′′N 29°52′18′′E (5.109m). Loftslagið í fjöllunum er mjög rakt og fjöllin nær alltaf umlukin skýjum. Margherita tindurinn er 4. hæsti tindurinn í álfunni en það eru Uhuru tindurinn á Kilimajnaro og svo Batian og Nelion tindarnir á Mt. Kenya sem eru hærri.  Þar sem Batian og Nelion eru í sama fjallinu þá telst Mt. Stanley 3. hæsta fjall Afríku.

Rwenzori fjöllin eru á heimsminjalista UNESCO síðan 1994 vegna einstakrar náttúrufegurðar.

Við erum að leggja í 7 daga fjallgöngu þar sem farið verður langt inn í regnskóg Rwenzorifjallanna sem eru á landamærum Uganda og Congo. Þessi fjallgarður er einstæð náttúruperla en þau hafa m.a. verið kölluð fjöll tunglsins sökum sérstakrar náttúru og gróðurs sem þar finnst. Myndirnar hér fyrir neðan eru allar teknar á ferðum okkar í Rwenzorifjöllunum. 

M: Morgunmatur, H: Hádegismatur, K: Kvöldmatur

Dagsplanið:

Dagur 1: Ferðadagur

Eftir lendingu í Entebbe í Uganda verður okkur ekið inn til höfuðborgarinnar, Kampala og upp á hótel. Eftir langt flug verður gott að koma upp á hótelið og safna kröftum fyrir gönguna. K


Gengið er í gegnum ótrúlegt gróðurfar Rwenzori fjallanna

Dagur 2: Kampala til Kassese

Við leggjum eldsnemma af stað til Kassese sem er í nánd við þjóðgarðshlið Rwenzorifjallanna. Á leiðinni förum við í gegnum sveitir Uganda og er margt áhugavert að sjá og margt sem kemur okkur spánskt fyrir sjónir. Keyrsla til Kasese u.þ.b. 7 tímar. M

Dagur 3: Nyakalengija (upphaf göngu) til Nyabitaba búða (2.652 m)

Eftir morgunverð er keyrt að þjóðgarðshliði Rwenzorifjallanna, Nyakalengija (1.646 m) þar sem gangan hefst. Þar munum við hitta leiðsögu- og burðarmenn á fjallið og þar erum við skráð inn í þjóðgarðinn. Í upphafi verður gengið í gegnum kaffiekrur, en eftir þverun Mahoma árinnar þarf að klífa bratta, skógi vaxna hlíð alveg upp á brún. Þar munum við fá að launum fallegt útsýni yfir Portal tindana til Nyabitaba búðanna þar sem gist verður fyrstu nóttina. Reikna má með 4-5 tíma göngu. M+H+K

Dagur 4: Nyabitaba búðir til John Matte búða (3.414 m)

Gengið niður að Mubuku og Bujuku ánum. Gengið áfram í gegnum frumskóginn upp að John Matte búðum, um 4-5 tíma ganga. M+H+K


Fjallagarpar á uppleið

Dagur 5: John Matte búðir til Bujuku búða (3.962 m)

Gengið í fallegu umhverfi meðfram Bigo mýrum sem leiða okkur að Bigo búðum. Farið er yfir plankabrú á efri Bigo mýrum. Eftir það tekur við mun brattari kafli þar sem lokatakmark dagsins er Bujuku vatnið. Ef við erum heppin, fáum við að sjá ótrúlega fallegt útsýni yfir Stanley sléttuna. Gist í Bujuku búðum sem er í um 20 mínútna göngufæri frá Bujuku vatni. Um 4-5 tíma ganga. M+H+K


Horft niður að Bujuku vatni

Dagur 6: Bujuku búðir til Elena skáli (4.541 m)

Frá Bujuku búðunum liggur leiðin um Scott Elliot skarðið í grýttum og bröttum hlíðum Mt. Baker fjalls. Útsýnið yfir Margherita tindinn, Elena og Savoia jöklana ásamt Mt. Baker er stórfenglegt. Þegar við náum um 4.400m hæð komum við upp úr gróðri og yfir á bera klöppina. Þaðan liggur leiðin upp í Elena skálann sem er lítill kofi sem veitir skjól í stuttan tíma áður en lagt er á tindinn. M+H+K


Elena skálinn, efsti skálinn í fjöllunum

Dagur 7: Elena skáli – Margherita tindur (5.109 m) – Kitandara búðir (4.430 m)

Þetta er lengsti og erfiðasti dagur ferðarinnar. Við leggjum af stað frá Elena skála vel fyrir sólarupprás og klöngrumst upp klettabeltið þar til komið er að jöklinum. Þar förum við í mannbroddana, mundum ísaxirnar og komum okkur í bönd. Við fikrum okkur svo eftir jöklinum upp á hrygg sem leiðir okkur upp á sjálfan Margherita tindinn. Ef heppnin er með okkur og við fáum gott veður er stórkostlegt útsýni yfir Rwenzori fjallgarðinn og nálægar sveitir, bæði í Uganda og líka í Congo, en landamæri Uganda og Congo liggja einmitt um tindinn. Þegar við höfum horft nægju okkar og tekið myndir fyrir albúmið (og fyrir alla helstu samfélagsmiðla!) höldum við aftur niður að Elena skála og þaðan áfram niður til Kitandra búða. Þessi dagleið tekur um 9-10 tíma. M+H+K

Dagur 8: Kitandara búðir til Guy Yeoman skála (3.505 m)

Dagurinn byrjar á að við göngum upp að Freshfield skarði í Mobuku dalnum þar sem furðuplöntur vaxa í hrjóstrugum jarðveginum (4280m hæð). Mobuku dalurinn er afar fallegur og þar er að finna Kabamba fossana sem og útsýni yfir Baker fjall. Þaðan er gengið niður að Guy Yeoman búðum þar sem gist verður. Þessi leið getur tekið um 6 tíma. M+H+K

Dagur 9: Kassese til Kampala

Síðasta dag leiðangursins förum við frá Guy Yeoman skálanum í gegnum blautan mýrarskóginn niður nokkra bratta hryggi að Kichuchu klettum (sem þýðir „rykugi staðurinn“). Leiðin sem farin verður er á köflum mjög brött og sleip. Svæðið getur verið sérlega varhugavert og hér reynir á taugarnar. Við göngum fram á beljandi á sem æðir áfram á sleipu, hrjóstrugu yfirborði. Nýlega hefur verið settur stuðningur í formi trjástiga til að auðvelda fólki yfirferð. Komið til Nyakalengija eftir um 7 tíma og keyrt þaðan aftur upp á hótelið og farið í langþráða, heita sturtu. M+H

Dagur 10: Kassese til Kampala

Lagt verður snemma af stað áleiðis til Kampala þar sem leiðir skilja.  Einhverjir munu fara beint til Entebbe og í flug um kvöldið en aðrir geta kíkt á höfuðborgina og mannlífið þar sem er vel þess virði að skoða. M

Í hnotskurn

  • Lengd: 10 dagar
  • Land: Uganda