Afríka Ævintýraferðir - afrika.is
Fara beint í leiðakerfi vefjarins

Rwenzori - fjöll tunglsins

Mt. Stanley með tvíburatindana, Alexandra (5091m) og Margherita (5109m)
Mt. Stanley með tvíburatindana, Alexandra (5091m) og Margherita (5109m)

Fáfarinn fjallagarður

Á landamærum Uganda og Congo er fjallgarður sem heitir Rwenzori (Rúvensorí) og þangað hefur mig langað um árabil eða síðan að ég las um þetta svæði í ferðabók. Reyndar eru margir sem tengja Rwenzori við fjallagórillur sem hafast við í Rwenzori fjöllunum en það svæði er töluvert sunnar og þangað hef ég margoft komið. Svæðið sem hér um ræðir er fáfarið enda erfitt yfirferðar og ekki nema rúmlega 2000 ferðamenn á ári sem leggja á sig að ganga þarna um. Svæðið er ægifagurt þar sem neðst eru frumskógar með öpum, fuglum, fílum, kamelljónum o.fl. dýrum. Þegar ofar dregur þynnist gróðurinn en samt er hann magnaður að sjá með risavöxnum blómum og mosa í klettum og trjám. Gengið er um dali með fjallstinda allt í kring og þegar ofar kemur fer að sjást í snæviþakta tinda og jökulhettuna á Mt. Stanley sem er 5109m yfir sjávarmáli.

Upphaf ferðar

Ferðafélagar mínir voru 3 og að sumu leyti ólíkir en allir vandræðalausir og til í að takast á við þessa göngu. Þeir heita Andri Helgason, Jóhannes Erlingsson og Gísli Þráinsson auk mín Borgars Þorsteinssonar. Við flugum frá London til Entebbe í Uganda, áðum þar eina nótt, og ókum svo í 7 tíma að bænum Kasese sem er skammt frá Congo. Þar hittum við leiðangursstjórann og snemma morguns daginn eftir ókum við stuttan spöl að litlu þorpi þar sem gangan sjálf hófst eftir að búið var að ganga frá leyfum og öðru slíku. Þar hittum við burðarmenn, kokka o.fl. sem í fylgdarliðinu voru og alls var það 19 manna teymi! Við gengum út úr þorpinu og meðfram vatnsveitu sem er fyrir raforkuver en síðan tók brekka á móti okkur og 6 tíma ganga eða svo að fyrstu búðum sem heita Nyabitaba, í 2650 m hæð. Á leiðinni lamdi okkur hitabeltissólin miskunnarlaust og þótti okkur gott að komast inn í skóginn þegar slóðin lá þangað. Fljótlega eftir að í búðirnar var komið fengum við gómsætan mat og hélst það alla ferðina að maturinn var góður kvölds og morgna og kokkarnir lygilega lunknir við að galdra fram kræsingar (oft hrísgrjón og kássa) við frumstæðar aðstæður. Rétt fyrir matinn gerði haglél sem okkur þótti skrýtið eftir hitasvækju dagsins en svona er Rwenzori, það er allra veðra von.

Efri Bigo mýrin
Efri Bigo mýrin

John Matte búðir 3350m hæð

Næsta dag héldum við áfram niður í gil og yfir hengibrú og svo á brattann aftur. Allir vorum við í gúmmístígvélum enda er drulla oft á tíðum þegar gengið er um rótarflækjur frumskóganna. Við sáum nokkra apa og eina cobra slöngu, skærgræna, sem skaust yfir slóðann og auk þess fullt af fuglum og alls kyns blóma. Þegar í um 3000m hæð er komið tekur við bambusbelti og öðruvísi gróðurfar. Margir finna fyrir minnkandi súrefni strax í þessari hæð en sjálfur fann ég ekki fyrir því enda upptekinn við að mása og blása hvort eð var. Seinni part dags komum við til John Matte búða í 3350m hæð og fann ég aðeins fyrir hæðinni þar þ.e.a.s. smá seyðing af höfuðverk. John Matte búðir eru í fallegu rjóðri þar sem stutt er í læk með góðu fersku vatni sem reyndar er víða í Rwenzori. Eftir að dimma tók fórum við snemma í koju, hlustuðum á skógarhljóðin og reyndum að sofa í 11 tíma eða svo þar til birti.

Á brattann að sækja: Bujuku búðir, 3990m hæð í mögnuðu landslagi

Næsti dagur minnti okkur strax á það að við vorum komnir í mikla hæð og þá hægist á manni. Öndunin verður erfiðari og maður tekur enga aukaspretti að gamni sínu. Þetta ástand fer svo bara versnandi þegar ofar dregur en þó má forðast alvarleg einkenni með því að fara sér hægt og drekka mikið vatn. Við drukkum u.þ.b. 4-5 lítra á dag. Þessi dagur var einn sá fallegasti og landslagið magnað. Við gengum yfir tvær mýrar (búið er að setja spýtur til að auðveldara sé að fara yfir þær) og gengum fram hjá Bujuku vatni sem er í 3990m hæð áður en við komum að Bujuku búðum. Þrátt fyrir hæðina og erfiðið (um 8 tíma ganga) þá höfðum við góða matarlyst og vorum nokkuð frískir þó svo að við svæfum lítið þá nóttina. Það er erfitt að sofa vel í svo mikilli hæð því oft þegar maður er við það að sofna er eins og maður sé að kafna og þá hrekkur maður upp með andfælum og á erfitt með að sofna aftur. Nú vorum við ferðafélagar farnir að ræða í alvöru að fara á toppinn enda gnæfir hann yfir Bujuku búðir í rúmlega 5000m hæð.

Skógurinn rétt við John Matte skálann
Skógurinn rétt við John Matte skálann

Elena búðir, 4540m hæð: Pönnukökur og mannbroddar

Við ákváðum að taka stöðuna daginn eftir í Elena búðum sem eru í 4540m hæð og þangað héldum við um morguninn. Elena búðir standa berskjaldaðar á kletti við Scott Elliot skarð og þar er oftast rok og skítkalt. Okkur leið samt sæmilega þar inni í baðstofunni þó svo að öðru hvoru skæfi snjó inn um þakið. Andri var nokkuð slappur af hæðinni og var ákveðið að hann færi ekki út um nóttina til að reyna við tindinn eins og við hinir. Mér leið mjög vel, með góða matarlyst og lítinn hausverk. Kl. 4:30 um nóttina borðuðum við pönnukökur í morgunmat og lögðum svp í hann með Bosco og Robert okkar innfæddu leiðsögumönnum. Stjörnunar skinu skært á himni og veður var stillt. Við klöngruðumst yfir kletta með höfuðljós okkur til fulltingis uns komið var að jökulrönd efir u.þ.b. eins klukkustundar klöngur. Það var aðeins tekið að birta og ljósrauður bjarmi kominn á himinn í austri. Hér spenntum við á okkur mannbrodda, festum okkur saman í bönd og gripum um ísaxir. Þessu hafði ég kviðið ögn. Ég hef aldrei snert á slíku fyrr en samkvæmt leiðarlýsingum og frásögnum innfæddra sem sögðust þekkja til átti ég ekki að hafa áhyggjur því þetta væri ekki bratt og bara spurning um að ganga rétt á broddunum. Annað átti eftir að koma á daginn.

Einn af íbúum svæðisins, þríhyrnt kamelljón
Einn af íbúum svæðisins, þríhyrnt kamelljón

Svellkaldir á jöklinum: Líklega fyrstu Íslendingar á Margherita tindinum?

Þegar á jökulinn var komið gengum við taktvisst, bundnir saman einu reipi. Robert fór yfir það hvernig við ættum að fara að ef einhver dytti í sprungu o.þ.h. Eftir um eins tíma göngu komum við að þverhnípi og héngu bönd þar niður. Þeim skildum við fylgja. Mér leist ekki á blikuna. En það var ekki aftur snúið og niður fór ég afturábak með lafandi tungu. Sameinaðir á ný gengum við 5 menn yfir annan jökul uns við komum að öðru þverhnípi þar sem 3 álstigar voru bundnir saman og hurfu niður í hyldýpi. Nú var ég orðinn vel smeykur en lét ekki á neinu bera og klöngraðist niður stigana með um kílómetra fyrir neðan mig í frjálsu falli. Nú þurftum við að arka upp þverhnípt ísstálið og ég sem aldrei hafði tekið um ísexi, í mesta lagi ískex. Ég reyndi hvað ég gat og komst áleiðis en svo sortnaði mig fyrir augum: batteríin voru búin. Robert, Jóhannes og Gísli sem voru betur á sig komnir og vanir ísbúnaði héldu áfram (og komust á toppinn líklega fyrstir Íslendinga) en ég og Bosco leiðsögumaður snérum við og verður sú för ekki rakin hér í smáatriðum. Í grófum dráttum þá var ég örmagna með byrjun af hæðarveiki í lungum og tók ferðin niður til Bujuku búða 8 tíma og man ég ekki allt úr þeirri för. Það var ekki alveg á hreinu á tímabili hvort ég flygi heim í farþegarýminu eða farangurs.......

Einstök náttúra Rwenzori fjallanna og gott fólk

Við komum svo til Nyabitaba búða í 2650m hæð 2 dögum seinna lurkum lamdir og þreyttir, skítugir og sveittir en ánægðir og glaðir yfir þeim sigrum sem hver og einn okkar hafði unnið.

Ferðalangar í upphafi ferðar
Ferðalangar í upphafi ferðar

Við féllum allir fyrir Rwenzori. Náttúran er einstök og fólkið sem fylgdi okkur var af allra bestu gerð. Unesco hefur sett Rwenzori á heimsminjaskrá og því er þetta svæði vel verndað gagnvart veiðiþjófum og stjórnvöld í Úganda leggja mikið upp úr öryggi ferðamanna. Við hjá afrika.is munum örugglega bjóða upp á gönguferð um Rwenzori (með jökulinn sem val!) í nánustu framtíð.

Myndir úr ferðinni.

Smellið á litlu myndirnar til að sjá stærri útgáfu. Myndirnar tók Jóhannes Erlingsson.

í upphafi skal endinn skoða! - Við vissum ekki alveg hvað við vorum að fara út í
Kamelljón sem varð á vegi okkar
Tarsan gæti alveg sveiflað sér þarna
Flottur í gúmmístígvélunum.
John Matte skálinn
John Matte skálinn í morgunljómanum
Neðri Bigo mýrin
Enn í neðri Bigo mýrinni
Borgar, Bosco og Andri
Horft ofaná risa lobelliu
Kominn á toppinn
Hádegismatur rétt fyrir neðan toppinn
Takið eftir stiganum sem er þarna í klettunum
Kamarinn og kletturinn
Alexandra tindurinn vinstra megin og Margherita hægra megin
Einn af stigunum sem urðu á vegi okkar
Horft upp að Scott Elliot skarði
Eilífðarblóm - Helichrysum Guilemii
Helichrysum Guilemii
Neðri Bigo mýrin
Kokkurinn í ferðinni hafði fyrir því að tína blóm og skreyta borðið hjá okkur
Dádýr sem við rákumst á
Þríhyrnt kamelljón

 Augnablikið

Klifrað í trjám við Thomson Falls, Kenya

 Vissir þú

Fish River Canyon í Namibíu er stærsta gjá heims

 Myndir úr ferðum

Myndir úr ferðum

 Myndskeið úr ferðum

Myndskeið úr ferðum

 Fyrirspurnir

Viltu vita meira um ferðir og fyrirkomulag?

Sendu fyrirspurn