Algengar spurningar

Á ferðalagi okkar ferðumst við einkum í fjórhjóladrifnum jeppum og í litlum smárútum. Þar sem pláss fyrir farangur er takmarkað í þessum bílum mælum við með að fólk taki tillit til þess og haldi farangri í skefjum. Til viðmiðunar höfum við hér sett saman útbúnaðarlista en þó ber að taka það fram að hann er ekki tæmandi. Hann er á Word sniði, en ef einhver á í erfiðleikum með að opna hann þá er sjálfsagt að senda á öðru sniði til viðkomandi.
Í Kenya og Tanzaníu er 220-240 volta straumur en innstungurnar eru á flestum stöðum af breskri gerð (hægt að kaupa millistykki m.a. á flugvöllum sem hannaðar eru fyrir nokkrar gerðir innstungna). Gott er að taka með sér lítið vasaljós/höfuðlukt/aukarafhlöðu fyrir raftæki því að á mörgum stöðum er slökkt á rafmagninu á ákveðnum tímum sólahringsins.
Mikilvægt fyrir ferð: Fáið upplýsingar hjá heimilislækni eða Ferðavernd í Holtasmára 1, hvaða lyf þarf að fá. Síminn hjá Ferðavernd er 578-0800. Sprautur þarf að gefa með nokkura vikna fyrirvara. Leitið eigi síðar en 5 vikum fyrir brottför til læknis. Munið að taka með bólusetningarvottorð í ferðina til Afríku. Læknir getur ráðlagt hvaða malaríuvarnir henta í ykkar tilviki. Athugið einnig með ferðatryggingu. Verið viss um að trygging nái yfir allan kostnað ef veikindi eða slys ber að höndum. Mikilvægt er að hafa með sér moskító vörn (þarf að vera frekar sterk) til að bera á sig í ljósaskiptum. Langerma, þunnirbolir og síðar, þunnar buxur eru einnig hentugar þegar rökkva tekur. Heimasíða Ferðaverndar er: vinnuvernd.is/ferdavernd/
Tilgangur safaríferðar er fyrst og fremst að upplifa dýrin í sínu náttúrulega umhverfi en ekki að ná sem bestum nærmyndum af þeim. Þess vegna er stoppað í nokkurri fjarlægð frá dýrunum í staðinn fyrir að keyra alveg upp að þeim og trufla þau í sínu daglega amstri. Best er auðvitað að vera vopnaður aðdráttarlinsum og má ná mjög góðum myndum þannig. Tækifæri til myndatöku á villtum dýrum og fallegu landslagi verða mörg. Einnig er gott að taka aukarafhlöður og aukaminniskort (við þekkjum af reynslu að þau klárast alltaf fyrr en maður heldur! Til dæmis eru 2-4 GB minniskort fljót að klárast ef upplausn myndanna er há.)
Þegar myndir eru teknar af fólki í landinu ber að hafa í huga almenna kurteisi og alltaf ber að biðja fólk um leyfi. Það er almennt ekki vel séð að taka myndir af fólki í leyfisleysi og alls ekki af opinberum starfsmönnum s.s. lögreglu eða landamæravörðum.
Í löndum Austur Afríku er víðast hvar auðvelt að skipta evrum, dollurum og pundum í gjaldmiðla innfæddra. Athugið að einungis Bandaríkjadalir frá árinu 2000 og yngri eru teknir gildir. Staðir sem hægt er að skipta peningum eru m.a. á flugvellinum, hótelum og í bönkum. Einnig er hægt að taka með sér greiðslukort, Visa, Mastercard og Eurocard og hægt er að nota þau og taka út á í flestum stærri borgum.
Þjórfé er stór hluti af launum í Afríku. Þeir sem að ættu að njóta góðs af því eru m.a. bílstjórarnir í ferðinni, burðarfólk og þjónustufólk. Fáið upplýsingar hjá fararstjóra um hvað er venjulega gefið. Einnig viljum við minna fólk á að versla ekki afurðir af dýrum í útrýmingarhættu (s.s. fílabein, krókódílaskinn, blettatígurskinn, kóralla o.fl.) enda stranglega bannað samkvæmt lögum. Athugið að ýmsar trjátegundir eru friðaðar og bannað að versla með muni af þeim (t.d. ebony (íbenholt/svartviður)).
Vegabréfsáritunar er krafist til að komast inn í lönd Afríku. Hægt er að fá hana við innkomu í hverju landi. Misjafnt er hvað hún kostar en t.d. í Kenya og Tanzaníu er hún $50 á mann (einnig fyrir börn). ATH! Þetta verð getur breyst. Gott er að hafa rétta upphæð tibúna inni í vegabréfinu við lendingu því það getur verið erfitt að skipta í smærri upphæðir. Við komuna til hvers lands þarf að fylla út eyðublöð og gott er að hafa penna innan seilingar.
Einnig er hægt að sækja um vegabréfsáritun til Kenya í gegnum netið hér: evisa.go.ke
Á ferðalögum um Austur Afríku getur verið allra veðra von þó svo að sól og hiti sé ríkjandi. Yfir daginn á hásléttunum er yfirleitt heitt og getur hitinn náð allt upp í 35°C um og eftir hádegi með sterkri sól. Hitabreytingar eru miklar í kjölfar næturinnar og getur verið frekar kalt snemma á morgnana (undir 10 gráðum). Gististaðirnir eru ekki sérstaklega vel einangraðir miðað við Ísland og getur orðið svalt yfir blánóttina. Við ströndina aftur á móti er heitt allan sólarhringinn og fellur hitastigið yfirleitt ekki undir 25°C á nóttinni þar.
Aðal rigningartímabilið er í apríl og maí og svo aftur í nóvember fram í desember, sem lýsir sér helst í stuttum en kraftmiklum regnskúrum. Munið sólarvörnina því sólin er afar sterk. Gott er að byrja á SPF 30-50.
Við mælum með stuttbuxum (kvartbuxum) stuttermabol og strigaskóm/sandölum þegar ferðast er í bílunum. Mikilvægt er að hafa með sér síðbuxur, síðerma bol/skyrtu og jafnvel þunnan jakka/flíspeysu bæði til að verjast kulda (á morgnana inni í landi) og moskítóbitum við ströndina. Hör er þægilegt efni til að vera í á ferðalögum. Hafið endilega sundföt með því margir gististaðir eru með sundlaug og við ströndina kallar Indlandshafið á sundsprett í tærum sjónum.
Maturinn er góður og nóg af ferskum ávöxtum og grænmeti. Það er í lagi að borða ávexti sem eru skrældir og um að gera að njóta þeirra. Grænmeti þarf að vera soðið og óþarfi að taka áhættu með annað þó svo að þeir staðir sem að við dveljum á séu með almennt góðan “standard”. Drykkjarvatn er best að kaupa í plastflöskum. Oft getur klórmagn farið illa í magaflóruna og því best að velja ekki vatn með miklu klórmagni. Sódavatn (hreint eða með sítrónubragði) hefur lítið klórmagn og fer vel í maga.
Í löndum Afríku er fullt af lífsglöðu og heiðarlegu fólki og ekki spillir sólin og loftslagið fyrir. En Afríka er einnig álfa öfganna með mikið af auðlindum sem er misjafnlega skipt niður til þegna hennar. Í öllum borgum og stærri bæjum má sjá merki um mikla fátækt og það gefur auga leið að við hin Vestrænu erum auðug í augum innfæddra. Það er mjög mikilvægt að flíka ekki óþarflega peningum sínum eða öðrum verðmætum. Best er að hafa ekki mikið meira en u.þ.b. $50-100 á sér í vasa hverju sinni og geyma kort, vegabréf og önnur verðmæti í innanklæðaveski eða á hótelum í þar til gerðum öryggishólfum. Skartgripi, eyrnalokka og hálsmen ætti að skilja eftir á Íslandi sem og verðmæt úr.
Hafið almenna skynsemi í fyrirrúmi og þá er fullvíst að dvöl ykkar í Afríku verður sérlega ánægjuleg .